Enski boltinn

Assou-Ekotto fór úr axlarlið og er úr leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bakvörðurinn Benoit Assou-Ekotto mun ekki spila meira með Tottenham á leiktíðinni en hann fór úr axlarlið í leik liðsins gegn QPR á dögunum.

Harry Redknapp, stjóri liðsins, greindi frá þessu í dag en Assou-Ekotto hefur reyndar einnig átt við hnémeiðsli að stríða. Tottenham á fjóra leiki eftir af tímabilinu og er ljóst að Assou-Ekotto mun missa af þeim öllum.

Tottenham hefur fatast flugið að undanförnu en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu níu deildarleikjum sínum. Það er nú í fimmta sæti deildarinnar og á í harðri baráttu við Arsenal, Newcastle og Chelsea um 3.-4. sæti deildarinnar.

Lærisveinar Redknapp mæta Blackburn á sunnudaginn. Blackburn er sem stendur að berjast fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni og þarf nauðsynlega á sigri að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×