Innlent

Sigmundur Davíð vill taka löggæslumál fastari tökum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Myndin er úr safni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Myndin er úr safni.
Formaður Framsóknarflokksins vill að löggæslumál verði tekin fastari tökum og að lögregla fái auknar rannsóknarheimildir sem geta nýst í baráttunni skipulögðum glæpum.

Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins í Rúgbrauðsgerðinni í morgun. Sigmundur lagði áherslu á fjögur atriði sem hann segir að krefjist tafarlausrar stefnubreytingar frá því sem nú er. Þau atriði eru gjaldmiðilsmál, atvinnumál, skuldavandi heimilanna og glæpir og staða löggæslumála.

Sigmundur segir að í rúmlega 300 þúsund manna á eyju í Norður-Atlantshafi eigi skipulögð glæpastarfsemi ekki að fá þrifist. Á Íslandi á öllum að finnast þeir öruggir, hvar sem er og hvenær sem er. Hann segir því bráðnauðsynlegt að þetta verkefni verið tekið mun fastari tökum en gert hefur verið hingað til. Þá vill hann að gerð verði sérstök löggæsluáætlun fyrir Ísland, þar sem mannafla- og fjárþörf lögreglunnar til framtíðar verði sérstaklega metin. Þá eigi skipulögð glæpasamtök að vera bönnuð á Íslandi.

Sigmundur skaut hart á núverandi stjórnvöld í ræðu sinni og sagði meðal annars að þeim hefði mistekist í starfi sínu, vegi að íslenskri framleiðslu og haldi niðri fjárfestingu með pólitískum óstöðugleika og endalausum skattkerfisbreytingum. Þá sagði hann forsætisráðherra uppnefna þá sem starfa í sjávarútvegi og nota um þá orðbragð sem minnir helst á málflutning íslenskra kommúnista á millistríðsárunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×