Enski boltinn

Aron Einar: Þekkjum undanúrslitin og klárum þetta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron Einar (lengst til vinstri) og félagar fagna á Selhurst Park í dag.
Aron Einar (lengst til vinstri) og félagar fagna á Selhurst Park í dag. Nordic Photos / Getty
Aron Einar Gunnarsson, leikmaður Cardiff, var ánægður með sigur sinna manna gegn Crystal Palace í dag. Sigurinn tryggði Cardiff sæti í umspili um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni þar sem West Ham verður andstæðingurinn.

Aron Einar var í spjalli hjá útvarpsþættinum Fotbolti.net á X-inu skömmu eftir að flautað var af. Hann sagði þetta hafa verið öruggt hjá sínum mönnum í dag þrátt fyrir að vera marki undir í hálfleik gegn Crystal Palace

Hefði Cardiff legið gegn Palace og Middlesbrough sigrað Watford hefði draumurinn verið úti.

„Við vissum í hálfleik að staðan væri 0-0 hjá Watford og Middlesbrough. Við vorum ekkert að stressa okkur. Vorum rólegir og yfirvegaðir á boltanum vissir um að við myndum setja eitt eða tvö mörk. Við þurftum bara eitt stig enda með miklu betri markatölu en Middlesbrough," sagði Aron Einar.

Cardiff mætir West Ham í undanúrslitum í tveimur leikjum en sigurvegarinn tryggir sér sæti í úrslitaleiknum á Wembley. Aroni Einari líst vel á leikina og segir pressuna á West Ham sem féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

„Við höfum ekki tapað í tíu leikjum og erum á góðu skriði. Það er oftast þannig að liðin sem koma á siglingu inn í umspilið standa sig vel. En þetta verða tveir erfiðir leikir gegn West Ham sem hefur marga leikmenn í úrvalsdeildarklassa í röðum sínum," segir Aron Einar.

Cardiff hefur því sem næst verið áskrifandi að sæti í umspilinu undanfarin ár en ekki tekist að tryggja sér sæti í úrvalsdeildinni. Aron Einar segir reynslu liðsins úr undanúrslitum í deildabikarnum í vetur koma liðinu vel.

„Við höfum spilað í undanúrslitum í ár og vitum hvernig þetta er.“

Cardiff og West Ham hafa hvort unnið sína viðureign liðanna í vetur. West Ham vann sigur í Wales en Kenny Miller skoraði eina mark leiksins þegar Cardiff lagði West Ham í fyrstu umferðinni í haust.

Undanúrslitaviðureignirnar fara fram í kringum næstu helgi. Úrslitaleikurinn verður á Wembley þann 19. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×