Enski boltinn

Fer Gylfi til Manchester United á 10 milljónir punda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór lagði upp mark og átti skot í stöng í 4-4 jafnteflinu gegn Wolves í gær.
Gylfi Þór lagði upp mark og átti skot í stöng í 4-4 jafnteflinu gegn Wolves í gær. Nordic Photos / Getty
Gylfi Sigurðsson heldur áfram að vekja athygli í ensku úrvalsdeildinni en hann átti afar góðan leik í 4-4 jafntefli gegn Wolves í gær. Slúðurpressan í Englandi orðar Gylfa við Liverpool, Manchester United og Newcastle og er verðmiðinn talinn vera 10 milljónir punda eða rúmir tveir milljarðar íslenskra króna.

Sir Alex Ferguson var mættur á Liberty-leikvanginn sem gerði vafalítið mikið til að ýta undir sögusagnir um áhuga hans á Gylfa. Sú staðreynd að United spilar við Swansea í næstu umferð var þó líklega megintilgangur ferðar hans til Wales.

Aðdáun enskra miðla á Gylfa er mikil og fer breski miðillinn Guardian fremstur í flokki. Í slúðurpistli blaðamannsins Rob Smyth kemur meðal annars fram að tveir blaðamenn miðilsins séu því sem næst skotnir í Gylfa.

Hrifning blaðamanna miðilsins lýsir sér ekki síst í því að þeir leggja sig fram við að skrifa 'ð' í eftirnafni kappans og sætta sig ekki við að því sé skipt út fyrir 'd'. Þar er Gylfi í sérflokki enda fjölmargir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni frá löndum sem nota annað stafróf. Erlendu bókstöfunum þó iðulega skipt út fyrir enska bókstafi.

Nánar um það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×