Innlent

Borgaryfirvöld munu bregðast við hraðakstrinum á Granda

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson segir að það þurfi að hugsa um svæðið til langs tíma.
Gísli Marteinn Baldursson segir að það þurfi að hugsa um svæðið til langs tíma.
Það er hægt að grípa til bráðabirgðaaðgerða og aðgerða til langs tíma til þess að bregðast við hraðakstri á Granda, segir Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi. Hann og Hildur Sverrisdóttir varaborgarfulltrúi fluttu tillögu í umhverfis- og samgönguráði í gær um að farið verði í nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr hraðakstri í Ánanaustum, Grandatorgi, Hólmaslóð, Mýrargötu og nágrenni.

Stöð 2 hefur undanfarna daga greint frá miklum háskaakstri á þessum stað og umkvörtunum íbúa á svæðinu vegna þessa. Gísli segir að samgöngustjóra verði falið að móta hugmyndir til úrbóta en sjálfur hefur hann þó ýmsar hugmyndir um það sem hægt yrði að gera.

Bráðabirgðatillögur gætu falið í sér að setja upp hraðahindranir eða hraðamyndavélar eða hvorutveggja. Þá sé hægt að efla samstarf við lögreglu. „Til lengri tíma hugsa ég hins vegar að við vildum fara þá leið að reyna að gera umhverfið þarna óæskilegra fyrir hraðakstur með því að þrengja götur, bæta aðgengi fyrir gangandi með upphækkuðum gangstéttum, gangbrautum og þess háttar þannig að menn upplifi það ekki að það sé í lagi að keyra of hratt. Því að eins og lögreglan hefur sagt þarf þetta allt saman að haldast í hendur, upplifun ökumannsins, reglurnar sjálfar og eftirlitið," segir Gísli. Hann segir að þeir sem keyri þarna of hratt núna geri það af því að það sé hægt og ekkert stöðvi þá nema lögreglan.

„Við þurfum að hugsa um þetta svæði til lengri tíma. Það er fólk að flytja inn í húsin þarna í nágrenninu, í Mýrargötunni til dæmis," segir Gísli Marteinn. Þá sé hótel að opna á svæðinu og gestir þar muni ganga út á Granda. Þá sé Sjóminjasafnið, vinsælt safn, í nágrenninu. Allt þetta geri það að verkum að það sé óboðlegt að vera með hættur sem stafa af hraðakstri í þessu umhverfi.

Tillaga Gísla Marteins og Hildar var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og á bloggsíðu sinni hrósar Gísli Marteinn félögum sínum í meirihlutanum fyrir að láta það ekki þvælast fyrir sér hvaðan málin koma. „Stjórnmálamenn eiga að styðja góð mál hvaðan sem þau koma og vera á móti vondum málum, sama hvaðan þau koma," segir Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×