Innlent

Tundurdufl sprengt við Stapafell

Tundurdufl. Myndin er úr safni.
Tundurdufl. Myndin er úr safni.
Landhelgisgæslan sprengdi tundurdufl við Stapafell fyrir stuttu. Mikill hvellur heyrðist frá sprengingunni. Svo mikill var hann að íbúi í Reykjanesbæ taldi að jarðskjálfti hefði riðið yfir.

Það var togveiðiskipið Sóley Sigurjóns GK sem fékk tundurduflið í veiðarfæri sín djúpt út af Sandgerði fyrr í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni stafaði mikil hætta af duflinu og var skipverjum komið frá borði hið snarasta.

Talið er að um 300 kíló af sprengiefni hafi verið í sprengjunni.

Sprengjan var síðan flutt að Stapafelli þar sem hún var sprengd um sex leytið.

Íbúar í Reykjanesbæ voru varaðir við af lögreglu. Nokkrum brá þó í brún þegar hús þeirra tóku að nötra. Þá hafði íbúi samband við fréttastofu og tilkynnti um snarpan jarðskjálfta í Reykjanesbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×