Innlent

Laugardalslaug lokuð vegna framkvæmda

Unnið er að miklum endurbótum á Laugardalslaug og vegna framkvæmda verður lokað í þrjá daga eftir helgi - frá mánudegi til miðvikudags. Laugin opnar á ný kl. 8:00 sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 19. apríl. Gestir eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem lokun hefur í för með sér.

Þrátt fyrir framkvæmdir undanfarna mánuði hefur Laugardalslaug verið haldið opinni og segir Logi Sigurfinnsson forstöðumaður gesti hafa sýnt ótrúlega þolinmæði og skilning. Framkvæmdir hafa gengið vel þrátt fyrir tíðarfar, en tjaldað var yfir stóran hluta framkvæmdasvæðis svo mögulegt væri að vinna verkið á þessum árstíma.

Meðal þess sem verður gert meðan laugin verður lokuð er að slá undan nýrri göngubrú, taka að mestu niður vinnuaðstöðu og yfirbreiðslur, mála potta, tengja nuddpott og koma fyrir nýju öryggishandriði. Laugin verður einnig tæmd og þrifin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×