Enski boltinn

Gylfi Þór: Ég vil vera áfram hjá Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt marka Swansea í 3-0 sigri liðsins á Blackburn í dag. Eftir leikinn sagði hann í viðtali við enska fjölmiðla að hann vildi vera áfram í herbúðum velska liðsins.

Gylfi er samningsbundinn þýska liðinu Hoffenheim til 2014 og fer að öllu óbreyttu aftur til liðsins í sumar. Markus Babbel, þjálfari liðsins, hefur sagt að hann vilji fá hann aftur.

Swansea er með hann í láni til loka tímabilsins en samdi ekki sérstaklega um forkaupsrétt á Gylfa sem hefur vakið athygli margra liða í Evrópu, sér í lagi í Englandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Gylfi hefur skorað sex mörk í ellefu leikjum með Swansea og hefur hreinlega farið á kostum. Var hann útnefndur besti leikmaður í ensku úrvalsdeilinni nú í marsmánuði.

"Ég nýt þess að spila hér en eins og ég hef alltaf sagt þá er þetta ekki undir mér komið. Ég á enn tvö ár eftir af samningnum við Hoffenheim," sagði Gylfi eftir leikinn í kvöld.

"Ég nýt þess virkilega að spila fótbolta í Englandi og vonandi verð ég áfram í ensku úrvalsdeildinni. Það er undir Swansea og Hoffenheim komið."

Brendan Rodgers, stjóri Swansea, segir hæfileika Gylfa augljósa. "Gylfi elskar að vera hér. Hann elskar að mæta á æfingar, elskar vinnuna og elskar borgina."

"Ég held að allir sjái hversu hæfileikaríkur hann er. Hann er miðjumaður sem skorar mikið og eru slíkir leikmenn sjaldgæfir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×