Enski boltinn

Barton ætlar að blogga á eigin heimasíðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Þó svo að Joey Barton sé hættur á Twitter ætlar hann að halda áfram að segja skoðanir sínar á sinni eigin heimasíðu sem hann stefnir á að setja í loftið innan tíðar.

Barton vakti mikla athygli fyrir færslur sínar á Twitter þar sem hann sagði skoðanir sínar á knatstpyrnu, pólitík, heimspeki og listum.

Hann kom sér til dæmis í ónáð forráðamanna Newcastle í sumar og var í kjölfarið seldur til QPR þar sem hann er í dag.

Barton var vinsæll á Twitter og var með um 1,4 milljónir fylgjendur. Nú er ætlunin að opna eigin heimasíðu þar sem hann mun blogga um allt á milli himins og jarðar. Hann ætlar einnig að birta alls kyns myndbönd á síðunni og nota hana sem vettvang þar sem netverjar geti skipst á skoðunum um hins ýmsu málefni.

Hann segir að það síðastnefnda geti verið erfitt á Twitter. „Það er til fullt af fólki sem hefur áhuga að eiga samskipti á netinu. En á Twitter er líka mikið af fólki sem gerir ekkert annað en að níðast á öðrum."

„Það er svo mikið af fólki á Twitter að það er erfitt að finna þann hóp fólks sem hefur áhuga á venjulegum skoðanaskiptum."

Hann segist ekki ætla að græða pening á síðunni og að engar auglýsingar verði á henni.

Barton er 29 ára gamall en hefur átt skrautlegan feril. Hann þótti afar ofbeldishneigður á árum áður og sat til að mynda í fangelsi fyrir líkamsárás árið 2008. Þá sneri hann við blaðinu og hefur síðustu misseri vakið meiri athygli fyrir yfirlýsingar sínar í fjölmiðlum og netheimum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×