Innlent

Tekjuhæstu fá mest afskrifað

Erla Hlynsdóttir skrifar
Sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn greiðsluvanda komu helst að gagni þeim sem alls ekki voru í slíkum vanda. Þetta er mat hagfræðinga Seðlabankans. Velferðarráðherra tekur fyrir að þetta sé áfellisdómur yfir aðgerðunum.

Hagfræðingar Seðlabankans kynntu í dag lokaniðurstöður greiningar á stöðu íslenskra heimila frá ársbyrjun 2007 til ársloka 2010.

Þar kom fram að afskriftir vegna 110% leiðarinnar skiptust þannig að tæp 24% þeirra fóru til húseigenda í greiðsluvanda, en nánast sama hlutfall, eða 22%, fór til húseigenda með mikinn tekjuafgang.

Árangurinn virðist enn verri þegar litið er til árangurs af sérstakri vaxtaniðurgreiðslu, eins og sjá má á myndrænan hátt í meðfylgjandi myndskeiði. Þar kemur fram að tæp 27% niðurgreislunnar fór til húseigenda í greiðsluvanda, en meira en þriðjungur þeirrar upphæðar sem varið var í greiðslurnar fór til húseigenda með mikinn tekjuafgang.

Skoðað eftir tekjuhópum sést að þeir tekjulægstu fá tæp 19% en þeir tekjuhæstu rúm 60.

Niðurstaðan er svipuð þegar kemur að almennum afskriftum verðtryggðra lána. Þeir tekjulægstu fengu tæp 22% afskriftana, en þeir tekjuhæstu tæp 57%.

Og þegar þetta er skoðað eftir tekjuafgangi sést að fjórðungur afskriftana fór til heimila í greiðsluvanda en heimili með mikinn tekjuafgang fá tæpan þriðjung.

„Þegar við skoðum að hversu miklu leyti þetta dregur úr greiðsluvanda, þá eru 110-prósenta-leiðin, sérstaka vaxtaniðurgreiðslan og almenn niðurfærsla á verðtryggðum íbúðalánum, þeim annmörkum háðar að þær skila sér afskaplega illa til þeirra sem eru í greiðsluvanda og hafa því takmörkuð áhrif til lækkunar á hlutfalli fólks í greiðsluvanda," sagði Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum.

Velferðarráðherra var viðstaddur kynninguna. Hann segir að niðurstaðan sé ekki áfellisdómur yfir þeim leiðum sem ríkisstjórnin hefur farið til að draga úr skuldsetningu heimilanna.

„Nei, aldeilis ekki," sagði Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. „Árið 2008 var skuldavandinn með ákveðnum hætti þrátt fyrir áföllin sem hafa komið í framhaldinu, þá stöndum við í svipaðri stöðu núna."

Hann segir að aðgerðunum hafi verið ætlað að taka á skuldavanda, og það hafi tekist.

„Og ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt í framhaldi af svona umræðu að greina þarna á milli hvað er skuldavandi, og þegar við erum að greina hann og reyna að ná honum niður, þá er oft verið að hjálpa þeim sem eru betur settir umfram þá sem eru með lægri tekjurnar en greiðsluvandinn er hjá þessum tekjulágu og við þurfum að leysa hann með öðrum hætti," sagði Guðbjartur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×