Enski boltinn

Arteta hetjan þegar Arsenal lagði City

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Mikel Arteta var hetja Arsenal en mark hans fjórum mínútum fyrir leikslok tryggði Lundúnarliðinu 1-0 sigur á Manchester City. Möguleikar City á titlinum eru að engu orðnir enda liðið átta stigum á eftir United í öðru sæti deildarinnar.

Arsenal var betri aðilinn í leiknum og hefði átt að komast yfir eftir stundarfjórðung. Þá átti Robin van Persie skalla eftir hornspyrnu sem stefndi í markið. Því miður fyrir hann og aðra hliðholla Lundúnarliðinu stóð Thomas Vermaelen á línunni og hrökk boltinn af höfði hans og yfir markið.

Skömmu síðar yfirgaf Fílabeinstrendingurinn Yaya Youre leikvöllinn vegna meiðsla. City má illa við að vera án hans í þeirri baráttu sem eftir er en Youre er algjör lykilmaður City-liðsins.

Færin voru af skornum skammti í fyrri hálfleik og aðallega Mario Balotelli sem var í sviðsljósinu. Vísa átti Ítalanum af velli þegar hann setti sólann í hné Alexander Song, miðjumanns Arsenal. Martin Atkinson, dómari leiksins, missti af atvikinu og Balotelli slapp með skrekkinn.

Robin van Persie komst í gott færi eftir 15 mínútna leik í síðari hálfleik en skalli hans af stuttu færi small í stönginni.

Áfram hélt sókn Arsenal og þurfti Joe Hart að taka á honum stóra sínum þegar Theo Walcott skaut af stuttu færi. Frákastið féll fyrir Vermaelen sem rann til á vellinum og í kjölfarið hitti Benayoun ekki boltann. Ótrúlegt að heimamenn næðu ekki forystuni.

Roberto Mancini skipti Carlos Tevez inn á fyrir Sergio Aguero en það kom ekki í hlut Argentínumannsins heldur Mikel Arteta að gera gæfumuninn á Emirates. Miðjumaðurinn snjalli vann boltann á miðjunni, lék í átt að teignum og bylmingsskot hans hafnaði neðst í markhorninu.

Pirringur Roberto Mancini á hliðarlínunni leyndi sér ekki frekar en hjá Joe Hart markverði City.

Aaron Ramsey skaut framhjá úr dauðafæri í viðbótartíma en það kom ekki að sök. Arsenal fagnaði sigri en möguleikar City á titlinum eru litlir sem engir eftir tapið. Grannarnir í United komnir með átta stiga forskot á toppnum þegar sex leikir eru eftir.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×