Fótbolti

Capello ætlar í gott frí | Þjálfar ekki aftur á Ítalíu

Ítalinn Fabio Capello, sem sagði starfi sínu sem landsliðsþjálfari Englands lausu í vikunni, hefur engin plön um að þjálfa á næstunni og ætlar að taka því rólega.

Capello hefur ekki mikið tjáð sig eftir að hann hætti en hefur þó gefið ítölsku fréttastofunni ANSA einstaka ummæli. Hann sagði við ANSA að misskilningur hefði orðið þess valdandi að hann hætti með landsliðið.

"Ég hljóp ekki frá starfinu. Ég hætti því það varð ákveðinn misskilningur," sagði Capello í anda Georgs Bjarnfreðarsonar. "Ég var ánægður í þessu starfi en stundum æxlast hlutirnir þannig að maður verður að fara."

Hinn 65 ára gamli Ítali segir alls ekki koma til greina að þjálfa aftur á Ítalíu.

"Ég tek ekki í mál að þjálfa þar aftur. Annars er ég ekki að hugsa um þjálfun núna og ætla bara að taka því rólega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×