Fótbolti

Öskubuskusigur Sambíu eftir vítaspyrnukeppni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Sambíu fagna sigrinum í kvöld.
Leikmenn Sambíu fagna sigrinum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Sambía er Afríkumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Fílabeinsströndinni í vítaspyrnukeppni að loknu markalausu jafntefli í úrslitaleiknum í Gabon. Gervinho og Kolo Toure tókst ekki að skora úr sínum spyrnum.

Átján spyrnur þurfti til þess að ná fram úrslitum. Bæði lið skoruðu úr fyrstu sjö spyrnum sínum en þá varði Mweene, markvörður Sambíu, spyrnu Kolo Toure. Sambíumenn gátu tryggt sér sigur en Kalaba skaut himinhátt yfir mark Fílabeinstrandarinnar.

Næstur á punktinn var Gervinho, leikmaður Arsenal, sem hitti ekki markið. Hinn 22 ára Stophira Sunzu, leikmaður TP Mazembe í Kongó (einmitt), tryggði Sambíu ótrúlegan sigur á stjörnu prýddu liði Fílabeinsstrandarinnar. Til marks um styrk Fílabeinsstrandarinnar var Emmanuel Eboue, leikmaður Galatasaray, geymdur á bekknum.

Úrslitaleikurinn var opinn og skemmtilegur þar sem bæði lið fengu færi til þess að tryggja sér sigur. Besta færið fékk Didier Drogba, leikmaður Chelsea, sem skaut yfir úr vítaspyrnu á 70. mínútu.

Sigur Sambíu er bæði óvæntur en bindur einnig enda á ótrúlegt öskubuskuævintýri. Tæp nítján ár eru liðin síðan stærstur hluti landsliðs Sambíu lét lífið í flugslysi undan ströndum Gabon á vormánuðum 1993. Um gullaldarlið Sambíu var að ræða sem mikils var vænst af.

Skærasta stjarna liðsins á þeim tíma, Kalusha Bwalya, var ekki um borð í vélinni sökum skuldbindinga við félagslið sitt PSV Eindhoven. Mikil vinna hefur farið í að byggja upp nýtt landslið í Sambíu en Bwalya gegnir einmitt stöðu forseta knattspyrnusambandsins þar í landi.

Það er sannarlega magnað að Sambía hafi farið alla leið í Afríkukeppninni og tryggt sér sigur einmitt í Gabon, nítján árum eftir flugslysið hörmulega.

Fílabeinsströndin hefur ekki unnið sigur í keppninni síðan árið 1992 þegar liðið hafði betur eftir vítaspyrnukeppni gegn Gana. Liðið beið lægri hlut gegn Egyptum árið 2006 einnig eftir vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×