Fótbolti

Hólmfríður: Mikill sorgardagur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hólmfríður í leik með íslenska landsliðinu.
Hólmfríður í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm
„Þetta eru hræðilegar fréttir og er maður í raun orðlaus yfir þessu," sagði landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir við Vísi en í dag var ákveðið að blása keppnistímabilið af í Bandaríkjunum.

Hólmfríður og Katrín Ómarsdóttir voru á mála hjá Philadelphia Independence og áttu að halda utan í mars. En í dag bárust þær fregnir að ekkert verði spilað í bandarísku WPS-deildinni í ár.

Ástæðan eru fjárhagserfiðleikar og málaferli sem forráðamenn deildarinnar standa í. Þó er stefnt að því að byrja að spila aftur árið 2013. En ákvörðunin setur Hólmfríði og aðra leikmenn í mjög erfiða stöðu.

„Það er búið að ganga á ýmsu og á sínum tíma var nokkur óvissa um hvort að það yrði spilað. En svo var gefið grænt ljós á það fyrir tveimur mánuðum síðan og því var ég ekkert að velta þessum málum fyrir mér lengur," sagði Hólmfríður.

„Ef það er fótur fyrir því að halda áfram að spila árið 2013 er það hið besta mál. En þá þarf meiri stöðuleika og fleiri lið til að taka þátt. Það gengur ekki að leikmenn þurfi stöðugt að hafa áhyggjur af atvinnuöryggi sínu," sagði hún en aðeins fimm lið voru skráð til leiks á tímabilinu.

„En þegar einar dyr lokast opnast aðrar og ég verð að hugsa um þetta á þeim nótum. Ég er reyndar engan veginn búin að átta mig á þessu enda heyrði ég fyrst af þessu í dag. Nú tekur við leit að nýju félagi," sagði Hólmfríður og lítur til Evrópu. Hún á norskan umboðsmann og lá það þegar fyrir áður en þetta mál kom upp að fara til Noregs síðar í vikunni til að ræða við félag.

„Það átti að vera fyrir haustið [eftir að tímabilinu átti að ljúka í Bandaríkjunum] en nú kemur allt til greina. Síðustu þrjá tímana hef ég verið að tala við umboðsmanninn minn í Noregi og er leitin hafin."

„En þetta var auðvitað ekki það sem ég vildi og þetta er í raun alveg ömurlegt. Þetta er mikill sorgardagur. Þetta eru ekki síst hræðilegar fréttir fyrir bandaríska knattspyrnu og með ólíkindum að ekki sé hægt að halda út atvinnumannadeild í þessu stóra landi."


Tengdar fréttir

Tímabilið blásið af í Bandaríkjunum

Þær Hólmfríður Magnúsdóttir og Katrín Ómarsdóttir munu ekki spila í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu, WPS, í vetur. Tímabilið hefur verið blásið af en það var tilkynnt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×