Fótbolti

Tímabilið blásið af í Bandaríkjunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
Þær Hólmfríður Magnúsdóttir og Katrín Ómarsdóttir munu ekki spila í bandarísku atvinnumannadeildinni í knattspyrnu, WPS, í vetur. Tímabilið hefur verið blásið af en það var tilkynnt í dag.

Þetta eru vitanlega skelfileg tíðindi fyrir leikmenn deildarinnar en þessi ákvörðun var tekin vegna þeirra málaferla sem forráðamenn deildarinnar standa í við eiganda fyrrum félags í deildinni. Hafa þær deilur staðið yfir í nokkurn tíma.

Fram kemur í tilkynningu á heimasíðu deildarinnar að málaferlin hafi það í för með sér að ekki sé hægt að beina fjármunum í deildina og liðin eins og áætlað var. Því verði tíminn nú notaður til að útkljá þessi mál og áætlað er að tímabilið 2013 fari fram samkvæmt áætlun.

Aðeins fimm lið voru skráð til þátttöku í deildinni. Eitt þeirra er Philadelphia Independence, lið þeirra Hólmfríðar og Katrínar. Öll lið hafa tilkynnt að þau ætli að halda starfssemi áfram og senda lið til keppni árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×