Fótbolti

Gjaldþrot blasir við LdB Malmö

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Stefán
Sænska meistaraliðið LdB Malmö, lið Þóru B. Helgadóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, á í miklum fjárhagslegum vandræðum þessa stundina. Gjaldþrot blasir við verði ekki brugðist við.

Þetta kemur fram í bréfi sem stjórn félagsins sendi borgaryfirvöldum í Malmö. Félagið hafi misst nokkra styrktaraðila og hafi það sett stórt strik í reikninginn.

„Við þurfum að finna lausn á þessu máli. Félagið gæti verið í það miklum vandræðum að það neyðist til að fara í gjaldþrot," sagði í bréfinu.

Vandamálin hófust árið 2010. Leikmaður Sunnenå slasaðist þegar hún skall með höfuðið í auglýsingaskilti á vellinum. Í ljós kom að skiltið var of nálægt vellinum og þurfti félagið að fjarlægja skiltin.

Félagið varð því af auglýsingatekjum vegna þessa sem nema milljónum sænskra króna. Það er ekki sátt við hvernig borgaryfirvöld hafa brugðist við þessu og hefur stjórn félagsins gefið yfirvöldum úrslitakosti.

„Það verður að liggja fyrir samkomulag við borgina þann 12. febrúar í síðasta lagi. Ef borgin vill ekki koma til aðstoðar verðum við að leita annarra leiða til að koma bókhaldinu í lag."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×