Innlent

Jens Kjartansson farinn í leyfi

Erla Hlynsdóttir skrifar
Jens Kjartansson er farinn í leyfi frá störfum sem yfirlæknir lýtalækningadeildar Landspítalans. Ákvörðunin er tekin að hans frumkvæði. Jens segir að landlæknir hafi vorið 2010 talið óheppilegt að hann upplýsti konur með PIP-púða um mögulega skaðsemi þeirra.

Jens tilkynnti ákvörðun sína á fundi með forstöðumönnum Landspítalans nú síðdegis. Þar kom fram að Jens óskaði sjálfur eftir að fara í leyfi vegna veikinda sem hefðu ágerst að undanförnu vegna þess álags sem hann hefur verið undir.

Sem kunnugt er flutti Jens inn PIP-sílíkonpúðana umdeildu og setti í yfir fjögurhundruð konur.

Í fréttum okkar í gær kom fram að landlæknisembættið hafði vitneskju um mögulega skaðsemi púðanna strax vorið 2010. Geir Gunnlaugsson, landlæknir, sagði þá að konur með púðana hefðu ekki verið látnar vita þar sem ekki hafi verið staðfest að púðarnir væru hættulegir.

Í samtali við Pressuna í dag segir Jens að hann hafi að eigin frumkvæði haft samband við landlæknisembættið á þessum tíma til að upplýsa að hann notaði þessa púða og að hann hefði velt fyrir sér að skrifa öllum konunum bréf. Landlækni hafi hins vegar þótt það óheppilegt, og því var ekkert af því.

Fréttastofa hafði samband við Geir í dag sem segir að á þessum tíma hafi staðgengill hans, Kristján Oddsson, verið við störf. Geir segist vita af því að Jens hafi rætt við starfsfólk embættisins en hann viti ekki nákvæmlega hvað þeim fór á milli.

Fréttastofa reyndi án árangurs að ná tali af Kristjáni fyrir fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×