Innlent

Búið að koma fólki niður af Hellisheiðinni

Mynd/Vilhelm
Björgunarsveitir úr Árnssýslu og Reykjavík og Vegagerðarmenn hafa í kvöld aðstoðað fólk á 20 til 30 bílum í vondu veðri og afleitri færð á Hellisheiði og í Þrengslum.

Um 20 björgunarsveitarmenn hafa aðstoðað ökumennina. Í tilkynningu frá lögreglu segir að enn séu þrír flutningabílar stopp á leiðinni og munu vegheflar sem sendir voru úr Reykjavík og frá Selfossi reyna að koma þeim af stað aftur og til byggða.

„Búið er að koma fólki úr fólksbílum niður af heiðinni, sumum í fjöldahjálparstöð RKÍ í Hveragerði en öðrum hefur tekist að koma niður í bílum sínum niður á láglendi þaðan sem þeir hafa bjargað sér sjálfir í húsaskjól eftir því sem við á. Í framhaldi af þessum aðgerðum munu mokstursmenn Vegagerðarinnar meta aðstæður, verður og veðurspá og verður þá ákveðið hvort unnt verður að opna veginn aftur í kvöld," segir ennfremur í tilkynningunni.

Fólki er bent á að fylgjast með upplýsingum á vef vegagerðarinnar eða í upplýsingasíma hennar, 1777. Einnig er nauðsynlegt að fylgjast með veðurspá en veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni gerir, í samtali við lögreglu nú fyrir stundu, ráð fyrir vestan storméljum á Hellisheiði og í Þrengslum í nótt og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×