Erlent

Sýrlendingar báðust afsökunar

Þingmenn á tyrkneska þinginu greiða atkvæði um heimildina.
nordicphotos/AFP
Þingmenn á tyrkneska þinginu greiða atkvæði um heimildina. nordicphotos/AFP
Tyrkneska þingið samþykkti í gær heimild til hernaðaraðgerða gegn Sýrlandi, daginn eftir að sprengjuárás frá Sýrlandi varð fimm manns að bana í Tyrklandi.

Jafnframt skutu tyrkneskir hermenn á skotmörk í Sýrlandi annan daginn í röð. Sýrlensk stjórnvöld viðurkenndu fyrir sitt leyti í gær að her þeirra hefði á miðvikudag gert árás á þorp handan landamæranna, og báðust afsökunar á. Þetta hefðu verið mistök.

Besir Atalay, aðstoðarforsætisráðherra Tyrklands, sagði að sýrlensk stjórnvöld hefðu fullvissað Sameinuðu þjóðirnar um að slíkt myndi ekki gerast aftur. Atalay tók síðan fram að heimild þingsins jafngilti ekki stríðsyfirlýsingu gegn Sýrlandi, heldur ætti hún fyrst og fremst að hafa fælingarmátt. Heimildin gefur Tyrklandi hins vegar möguleika til að senda herinn til aðgerða yfir landamærin til Sýrlands, án samráðs við önnur lönd.

Tyrkir hafa lengi beitt slíkri heimild til árása á Kúrda í norðanverðu Írak, þar sem sjálfstæðishreyfingar Kúrda hafa haft aðsetur og stundum gert árásir á Tyrki. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×