Fótbolti

Gerrard vill halda fyrirliðabandinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði enska landsliðsins í knattspyrnu, segist vilja halda áfram sem fyrirliði. Hann hefur alls ekki í hyggju að leggja landsliðsskóna á hilluna.

„Ég elska ábyrgðina og hef notið hverrar mínutu," sagði Gerrard aðspurður um tilfinninguna að gegna fyrirliðahlutverkinu á Evrópumótinu. Gerrard, sem er 32 ára, segist hafa rætt við Roy Hodgson, landsliðsþjálfara Englendinga, sem vilji að hann beri fyrirliðabandið áfram.

England féll úr leik í átta liða úrslitum í vítaspyrnukeppni að loknu markalausu jafntefli gegn Ítölum í gær. Gerrard er raunsær varðandi spilamennsku Englendinga á mótinu.

„Fótboltinn sem við höfum spilað hefur ekki verið frábær allan tímann. Við höfum ekki gert áhorfendur orðlausa. Það sést best á hve illa gengur að halda boltanum innan liðsins. Sem knattspyrnuþjóð þurfum við að bæta okkur með boltann í sóknarleiknum," sagði Gerrard sem er þó ánægður með framlag leikmanna liðsins.

„Allir gáfu allt sem þeir áttu og meira er ekki hægt að biðja um. Ég hef trú á því að stuðningsmenn liðsins séu sammála mér í því að menn hafi spilað með hjartanu," sagði Gerrard.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×