Fótbolti

Jón Guðni spilaði allan leikinn í sigri Beerschot

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Guðni, til vinstri, í leik með Fram.
Jón Guðni, til vinstri, í leik með Fram.
Jón Guðni Fjóluson var í byrjunarliði Beerschot í aðeins annað skiptið á tímabilinu í kvöld þegar að liðið vann 3-2 sigur á Sint-Truiden í belgísku úrvalsdeldinni.

Jón Guðni spilaði allan leikinn og fékk nú að kynnast því að vera í sigurliði í fyrsta sinn. Hann var í byrjunarliðinu þann 14. janúar síðastliðinn þegar að Beerschot steinlá á heimavelli fyrir Standard Liege.

Hann hefur verið ónotaður varamaður í alls nítján leikjum síðan hann gekk til liðsins frá Fram síðastliðið sumar.

Arnar Þór Viðarsson og Stefán Gíslason unnu einnig sigra með liðum sínum í Belgíu í kvöld.

Arnar spilaði allan leikinn með Cercle Brugge sem vann Mechelan, 1-0. Bróðir Arnars, Bjarni Þór, er á mála hjá Mechelen en er frá vegna meiðsla.

Stefán og félagar í Leuven unnu svo Westerlo á útivelli, 3-1. Stefán spilaði allan leikinn.

Ólafur Ingi Skúlason var ekki í leikmannahópi Zulte-Waregem sem tapaði fyrir Lierse á útivelli, 2-1. Þá var Alfreð Finnbogason ónotaður varamaður þegar að lið hans, Lokeren, hafði betur gegn Genk á útivelli, 1-0.

Lokeren, Beerschot og Mechelen eru í 8.-10. sæti deildarinnar, Leuven í því þrettánda og Zulte-Waregem í fjórtánda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×