Innlent

Björgunarstarf umfangsmeira en talið var - um 5000 kindur enn úti

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
Björgunarsveitamenn á Norðausturlandi og Húnavatnssýslum vinna nú hörðum höndum við að bjarga fé undan snjó samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg. Svo virðist sem umfang vandans sé mun meira en áður var talið.

Fé hefur fennt í kaf á mörgum bæjum í Mývatnssveit og hefur verið unnið að því að bjarga þeim í gær og í dag. Á Þeistareykjasvæðinu eru um 4000 kindur úti en ekki er vitað hversu margar þeirra eru undir snjó. Ráðgert er að vinna þar á morgun.

Verið er að setja saman aðgerðastjórn á Norðausturlandi með fulltrúum allra sem að koma; almannavörnum, björgunarsveitum, lögreglustjóra, sýslumanni og RARIK. Mun aðgerðastjórnin funda síðar í dag og setja saman áætlun um hvernig unnið verður í að leysa mál, bæði hvað varðar fé sem og ástand raforkukerfisins.

Sömu sögu er að segja úr Húnavatnssýslum. Í Sauðadal eru nú um 15 björgunarsveitamenn að bjarga fé úr snjó. Ekki er vitað um umfangið en talið er að yfir 1000 kindur séu í dalnum. Þar er mikill snjór og færi þungt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×