Innlent

Raunhæft að auðga sjávarrétti og halda gæðum

Þörungaþykkni og lýsi auka næringagildið en bollurnar eru jafn ljúffengar. fréttablaðið/anton
Þörungaþykkni og lýsi auka næringagildið en bollurnar eru jafn ljúffengar. fréttablaðið/anton
Matís og fyrirtækin Iceprotein á Sauðárkróki og Grímur kokkur í Vestmannaeyjum eru að ljúka verkefninu Auðgaðir sjávarréttir, en þróaðar voru nokkrar frumgerðir af vörum úr íslensku sjávarfangi þar sem bætt hefur verið við lífefnum eins og þörungaþykkni og lýsi. Niðurstöðurnar sýna að vel er hægt að auka magn ómega-3 fitusýra í fiskibollum án þess að það komi niður á bragðgæðum. Sama má segja um íblöndun þörungadufts og einnig tókst vel að auka próteinmagn í fiskibollunum.

Neytendakönnun á netinu, sem yfir 500 manns tóku þátt í, sýndi að fólk er almennt jákvæðara gagnvart auðgun matar ef um er að ræða þekkt hollustuefni á borð við ómega-3 fitusýrur. Auðgun með þara virðist einnig vera raunhæfur kostur og svipað átti við um fiskiprótein.

Þessar vörur höfða almennt frekar til fólks sem leggur áherslu á hollustu matvæla. Almennt ályktar hópurinn að auðgun sjávarrétta sé raunhæfur möguleiki en huga þarf að merkingum og upplýsingagjöf til neytenda.

Mikilvægur afrakstur þessa verkefnis er styrkur frá norræna sjóðnum Nordic Innovation til að halda áfram stærra verkefni á þessu sviði og stuðla þannig að auknum verðmætum sjávarfangs og lífefna úr hafinu. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×