Innlent

Engin refsing jafníþyngjandi og ágangur fjölmiðla

Verjandi telur að Baldur hafi ekki aðeins verið sakfelldur með dómi heldur einnig fyrir fram af fjölmiðlum.Fréttablaðið/gva
Verjandi telur að Baldur hafi ekki aðeins verið sakfelldur með dómi heldur einnig fyrir fram af fjölmiðlum.Fréttablaðið/gva
Fjölmiðlaumfjöllun um mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, hefur verið svo óvægin að engin refsing getur staðist samanburð við hana. Svo segir í greinargerð lögmanns hans, Karls Axelssonar, til Hæstaréttar.

Baldur var í apríl dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik og var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar.

Meðal þeirra sjónarmiða sem verjandi telur að eigi að verða Baldri til refsilækkunar, verði hann á annað borð fundinn sekur, er að hann hafi „nú þegar orðið fyrir dæmalausum áföllum og ágangi á mannorð sitt og allt persónulegt starf og líf, en þar hefur fjölmiðlaumfjöllun spilað stórt hlutverk. Á ákærða hefur þannig, og frá því að málið fyrst komst í hámæli haustið 2008, verið gefið út hreint veiðileyfi af hálfu fjölmiðla, sem farið hafa hamförum í umfjöllun um hann, persónu hans og störf og ekki síst fyrirfram sakfellingu á meintu broti hans“.

Þá hafi upplýsingum verið lekið um gang rannsóknarinnar. „Af þessum sökum „hraktist“ ákærði úr starfi ráðuneytisstjóra í nóvember 2009 og hefur verið án atvinnu frá þeim tíma. Er það raunar svo að sú refsing sem mögulegt er að gera honum úr þessu vegur lítið í samanburði við þá ágjöf sem hann og fjölskylda hans hefur mátt þola á fjórða ár.“

Ríkissaksóknari hafnar þessu í greinargerð sinni og segir engin fordæmi fyrir því í dómum Hæstaréttar að fjölmiðlaumfjöllun sé metin sakborningum til refsilækkunar. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×