Enski boltinn

Móðgun við ræsisrottur að kalla Diouf ræsisrottu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér er verið að bera Mackie af velli.
Hér er verið að bera Mackie af velli. Nordic Photos / Getty Images
Neil Warnock, stjóri QPR, hefur greinilega ekki mikið álit á El-Hadji Diouf, leikmanni Blackburn, en þessi lið mættust í ensku bikarkeppninni í dag.

Jamie Mackie, leikmaður QPR, fótbrotnaði í leiknum eftir tæklingu Gael Givet. Á meðan verið var að gera að sárum Mackie inn á vellinum jós Diouf fúkyrðum yfir hann.

„Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með El-Hadji Diouf," sagði Warnock eftir leikinn sem Blackburn vann, 1-0.

„Strákarnir voru brjálaðir. Hann [Mackie] var fótbrotinn og hann [Diouf] kallaði hann öllum illum nöfnum."

„Þetta var algerlega tilgangslaust. Meira að segja blöskraði fólkinu frá Blackburn. Svona fólk umber ég ekki. Ég skil ekki af hverju hann ætlar sér að rífast við allan heiminn í hverri einustu viku."

„Mér hefur í mörg ár fundist hann vera strákur á ekkert betra skilið en að vera í ræsinu. Ég ætlaði að kalla hann ræsisrottu en ég gerði mér þá grein fyrir því að það væri líklega móðgandi í garð ræsisrotta."

„Ég á ekki von á því að hann verði lengi hjá Blackburn þar sem ég tel það ólíklegt að maður eins og Steve Kean [stjóri Blackburn] líði það að hafa svona mann í búningsklefanum þegar hann er að reyna að byggja upp nýja ímynd á félaginu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×