Innlent

Innan við 20 mínútur á leiðinni

Langflestir komu á bíl á Landspítalann, og meirihlutinn lagði í gjaldskyld stæði við spítalann. 
fréttablaðið/vilhelm
Langflestir komu á bíl á Landspítalann, og meirihlutinn lagði í gjaldskyld stæði við spítalann. fréttablaðið/vilhelm
83 prósent þeirra sem koma sem gestir á Landspítalann eru tuttugu mínútur eða styttri tíma á leiðinni. Þetta eru niðurstöður ferðavenjukönnunar sem gerð var fyrir Nýja Landspítalann, opinbert hlutafélag um nýja byggingu við spítalann.

Könnunin var unnin þannig að gestir á spítalanum, bæði í Fossvogi og á Hringbraut, voru spurðir um ferðavenjur sínar. Könnunin var framkvæmd í nóvember og fengust svör frá 681 gesti. Yfir 48 prósent voru aðstandendur og 44 prósent voru að sækja þjónustu á spítalann. Sjö prósent voru í öðrum erindagjörðum þar.

Langflestir, eða tæp 95 prósent, sögðust koma akandi. Tæp þrjú prósent komu fótgangandi, tæplega tvö prósent gesta notuðu almenningssamgöngur og 0,6 prósent hjóluðu. Rúmur helmingur ökumanna lagði í gjaldskyld stæði, en aðrir lögðu ýmist í gjaldfrjáls stæði, lögðu í nágrenni spítalans eða lögðu á annan hátt.

Rúmur helmingur gestanna var á bilinu eina til tíu mínútur á leið sinni á spítalann, ýmist frá heimili sínu eða síðasta áfangastað. Þá voru 28 prósent á bilinu ellefu til tuttugu mínútur á leiðinni.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×