Innlent

Börðu tvo menn með bareflum

Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ríkissaksóknari hefur ákært tvo karlmenn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir.

Mönnunum tveimur, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri er gefið að sök að hafa sammælst um að veitast í sameiningu að tveimur öðrum mönnum í Ísafjarðarbæ. Hafi þeir leitað mannanna um götur bæjarins uns þeir mættust, skipt með sér verkum og ráðist á þá með bareflum.

Yngri maðurinn er ákærður fyrir að hafa slegið annan manninn að minnsta kosti tvö högg með trékylfu í höfuðið og að minnsta kosti eitt högg með kylfunni í hægri hendi.

Eldri árásarmaðurinn er ákærður fyrir að hafa barið hitt fórnarlambið tvö högg í hægri handlegg með golfkylfu. Báðir mennirnir sem ráðist var á hlutu áverka, meðal annars fingurbrot.

Annar mannanna krefur árásarmennina um skaða- og miskabætur upp á tæpa milljón eða 976 þúsund krónur. Hinn krefur þá um bætur að upphæð tæpar 726 þúsund krónur. Þá krefst ákæruvaldið þess að mennirnir verði dæmdir til refsingar og að bareflin verði gerð upptæk.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×