Innlent

Kalla eftir blóðgjöfum fyrir jól

Blóðbankinn hvetur alla gjafa sem eru aflögufærir til að gefa blóð fyrir jólin. 
fréttablaðið/valli
Blóðbankinn hvetur alla gjafa sem eru aflögufærir til að gefa blóð fyrir jólin. fréttablaðið/valli
Blóðbankinn sendi frá sér ákall til blóðgjafa í gær þar sem mikil þörf er á blóði um þessar mundir. Mikilvægt er að byggja upp forða fyrir jól og áramót.

„Það er mikil þörf fyrir blóð á spítölunum og það er eðlilegt að það fari um 200 til 300 einingar af blóði um hverja helgi. Þess vegna er mikilvægt að það sé nóg inni fyrir jólahelgina sem er að koma núna,“ segir Jón Þorsteinn Sigurðsson hjá Blóðgjafafélagi Íslands. Lokað er í Blóðbankanum frá föstudegi og opnað er á ný á þriðjudag eftir viku. Sama fyrirkomulag er um áramótin, en opið er þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag milli jóla og nýárs.

„Við hvetjum fólk til að gefa dýrmæta lífgjöf í jólagjöf, áður en það fer inn í hátíðarnar.“ Vonast er til þess að sem flestir blóðgjafar láti sjá sig síðustu dagana fyrir jól, en opið er til klukkan sjö á fimmtudagskvöld.

„Fólk sem hefur ekki komið áður getur komið, þá gefur það blóðprufu og er komið á skrá og getur þá gefið næst þegar það kemur. Við fögnum öllum nýjum jólagjöfum líka.“

Jón segir að forðinn sé venjulega í kringum 600 til 700 einingar af blóði. Þörf sé á að bæta á forðann nú því lítið þurfi að gerast til þess að forðinn klárist. Aðeins þyrfti eitt slys þar sem nokkrir slasist og þurfi blóðgjöf til þess að svo fari. - þeb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×