Innlent

Stjórn OR haldið utan við stöðuna í sölu á Perlunni

Nýir tímar í Perlunni Hæstbjóðandi hefur nú ríflega þrjá mánuði til að ná fram hugmyndum sínum um breytta nýtingu á Perlunni og lóð hennar. Meðal annars er gert ráð fyrir baðstað við húsið. Hönnunin er enn í þróun.
Nýir tímar í Perlunni Hæstbjóðandi hefur nú ríflega þrjá mánuði til að ná fram hugmyndum sínum um breytta nýtingu á Perlunni og lóð hennar. Meðal annars er gert ráð fyrir baðstað við húsið. Hönnunin er enn í þróun. Mynd/THG-ARKITEKTAR
Aðili sem bauð 1.689 milljónir króna í Perluna fær frest út mars til að gera arðsemismat. Stjórn OR var ekki upplýst áður en málið var gert opinbert. Óheppilegt játar stjórnarformaðurinn. Engin leynd sé yfir málinu.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður í Orkuveitu Reykjavíkur, segir stjórn OR haldið utan við samninga um sölu Perlunnar.

Greint var frá því í gær að Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, og fulltrúar ónefnds félags hefðu 24. nóvember síðastliðinn skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á Perlunni. Fyrirsvarsmaður tilboðsgjafans, sem eru aðilar á sviði ferðaþjónustu og húsbygginga, er Garðar Vilhjálmsson lögmaður. Hann hefur meðal annars rekið Bílaleiguna Geysi.

Garðar og félagar áttu hæsta tilboðið af sex sem bárust í október. Það er upp á 1.688,8 milljónir króna. Þeir hafa nú frest til 31. mars til að gera arðsemismat og kanna breytta nýtingarmöguleika á Perlulóðinni. Gert er ráð fyrir baðstað við Perluna og hótelrekstri.

Kjartan Magnússon segir stjórn OR ekki hafa fengið í hendur upplýsingar um einstök tilboð í Perluna áður en skrifað var undir viljayfirlýsinguna. „Umrædd viljayfirlýsing var undirrituð af forstjóra Orkuveitunnar 24. nóvember síðastliðinn en hefur ekki enn verið borin upp í stjórn fyrirtækisins til kynningar eða samþykktar. Hún var send stjórnarmönnum í tölvupósti laust fyrir klukkan 16 í dag [í gær] eftir að undirritaður hafði óskað sérstaklega eftir henni,“ segir í yfirlýsingu Kjartans frá í gær.

Kjartan kveður fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna hafa lagt til á stjórnarfundi OR á föstudaginn að stjórnarmenn fengju strax upplýsingar um öll tilboðin sem bárust og útfærslur einstakra tilboðsgjafa. Samþykkt hafi verið að upplýsa yrði stjórn fyrirtækisins um öll tilboð áður en afstaða til þeirra yrði tekin. „Þau vinnubrögð eru því með algerum ólíkindum að næsta virkan dag eftir stjórnarfundinn, það er á mánudagsmorgni, lesi stjórnarmenn Orkuveitunnar það í fréttum að skrifað hafi verið undir viljayfirlýsingu um sölu Perlunnar,“ segir Kjartan.

Haraldur Flosi Tryggvason, formaður stjórnar OR, segir það vissulega hafa verið óheppilegt að stjórnin hafi ekki fengið vitneskju um viljayfirlýsinguna áður en greint var frá henni opinberlega.

„Það stendur ekki til að halda neinu leyndu. Viljayfirlýsingin felur ekkert annað í sér en að hæstbjóðandi fær tíma til að klára tilboðið sitt. Málið fer aldrei neitt lengra áfram án atbeina stjórnarinnar,“ segir Haraldur. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×