Innlent

Miðaði hlaðinni haglabyssu í andlit konu

Við Kirkjusand Atburðarásin hófst á bifreiðaplaninu við Kirkjusand.
fréttablaðið/vilhelm
Við Kirkjusand Atburðarásin hófst á bifreiðaplaninu við Kirkjusand. fréttablaðið/vilhelm
Ríkissaksóknari hefur ákært tuttugu og þriggja ára mann fyrir að ráðast á fyrrum unnustu sína og svipta hana frelsi í allt að tvær og hálfa klukkustund í febrúar á þessu ári. Jafnframt að hafa miðað hlaðinni haglabyssu í andlit hennar.

Atburðarásin hófst með því að maðurinn hindraði konuna sem var farþegi í bíl sem hann ók í að yfirgefa bifreiðina, sem hann hafði lagt á bílaplani við Kirkjusand í Reykjavík. Hann greip í handlegg konunnar og læsti hurðinni, að því er segir í ákæru.

Maðurinn ók bifreiðinni í kjölfarið að athafnasvæði Eimskipa við Klettagarða og lagði henni þar upp við gámavörubifreið þannig að ómögulegt var fyrir konuna að komast út. Nokkru síðar hleypti hann henni þó út en þegar honum varð ljóst að hún hafði hringt í Neyðarlínuna þvingaði hann hana aftur inn í bifreiðina. Við það sló hann höfði hennar í tvígang utan í bílinn. Maðurinn reyndi jafnframt að þvinga hring af fingri hennar og kom henni svo fyrir á gólfi við aftursæti bifreiðarinnar.

Maðurinn ók að Bláfjallaafleggjaranum þar sem hann stoppaði um stund en ók loks að heimili konunnar. Við líkamsárásina hlaut hún áverka á höfði og líkama.

Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa í mars á bifreiðastæði í Kópavogi stofnað lífi og heilsu sömu konu í augljósa hættu, með því að miða hlaðinni haglabyssu að bifreið hennar og að andliti hennar á meðan hún steig út úr bifreið sinni. Maðurinn var með fjaðurhníf, sem lögregla fann við leit á honum.

Konan krefur manninn um ríflega 3.4 milljónir í skaða- og miskabætur.-jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×