Innlent

Fréttaskýring: Geirsmál er sprengja inn í áætluð þinglok

Tillaga um að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde hefur hleypt öllum áætlunum um þinglok í uppnám. Óvíst er hvenær þingmenn komast heim í jólakonfektið.fréttablaðið/gva
Tillaga um að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde hefur hleypt öllum áætlunum um þinglok í uppnám. Óvíst er hvenær þingmenn komast heim í jólakonfektið.fréttablaðið/gva
Hvaða áhrif hefur tillaga um afturköllun ákæru á Geir H. Haarde á þingstörfin? Tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, kom eins og sprengja inn í þingið á síðustu dögum fyrir þinglok. Þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks krefjast þess að málið verði tekið á dagskrá fyrir þinglok. Óvissa ríkir um hvort málið er þingtækt.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær var reynt að fá þingmenn annarra flokka sem meðflutningsmenn á tillöguna. Á endanum lagði Bjarni hana fram einn, seint á fimmtudagskvöldi. Samkvæmt dagskrá átti þingstörfum að ljúka í gær, en eins var búist við að þau drægjust fram á laugardag. Þegar Fréttablaðið fór í prentun hafði engin sátt náðst um hvernig þingstörfum skildi háttað.

Skyldi svo sem engan undra þar sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð tók ekki í mál að um eitthvað væri að semja. Mikil kergja er innan flokksins um að mál af þessari stærðargráðu komi fram á lokametrum þingsins. Því komi ekki til greina að semja sérstaklega um málið. Verði það samþykkt á dagskrá þingsins þurfi einfaldlega að fjölga starfsdögum, funda fram að jólum og á milli jóla og nýárs ef með þarf.

Mikil óánægja ríkir meðal stjórnarliða um hve seint málið kom fram. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var gagnrýnin á þingi í gær.

„Það er fráleitt að koma með þetta mál hér á lokadegi þings og fráleitt ef forseti lætur sér til hugar koma að setja þetta mál á dagskrá hér í dag. Og mér finnst fráleitast af öllu að einhverjir skuli hafa látið sér það til hugar koma að færa réttarhöld hingað inn í þingsali.“

Óvíst er hver verður lendingin með meðferð málsins. Stjórnarandstaðan hefur þau tök að geta tafið mál í ræðustól. Beiti hún því bragði getur þingið dregist áfram.

Það kæmi sér illa fyrir áætlanir ríkisstjórnarinnar, því fjölmörgum málum verður að ljúka fyrir áramót. Þar ber hæst ýmsar breytingar á sköttum og gjöldum tengdum fjárlögum.

Óvíst er hvort samkomulag tekst um meðferð málsins. Fái það þinglega meðferð er svo önnur spurning hvernig því reiðir af, hvort meirihluti sé fyrir því að afturkalla ákæruna á Geir H. Haarde.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×