Innlent

Mikill verðmunur á jólamat

Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið samkvæmt könnun ASÍ.fréttablaðið/anton
Verslunin Bónus var oftast með lægsta verðið samkvæmt könnun ASÍ.fréttablaðið/anton
Ódýrasta jólamatinn er oftast að finna í Bónus. Mikill verðmunur er á reyktu kjöti í verslunum landsins og reyndist mesti munurinn vera 37 prósent á SS hamborgarhrygg þegar verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun þann 12. desember síðastliðinn. Hryggurinn var dýrastur í Fjarðarkaupum og ódýrastur í Bónus.

Kannað var verð á 72 algengum matvörum sem verða á borðum landsmanna yfir jólahátíðina.

Bónus var með lægsta verðið í 42 tilvikum af 72. Samkaup-Úrval var með hæsta verðið í 35 tilvikum af 72, en Hagkaup í 33 tilvikum. Flestar vörurnar sem voru skoðaðar voru fáanlegar í verslunum Hagkaups eða í 69 tilvikum af 72 og í Fjarðarkaupum 68. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Nóatúni eða aðeins 52 af 72 og í Bónus 53.

Mestur verðmunur, eða 80 prósent, reyndist vera á fersku rauðkáli, sem var dýrast á 348 krónur hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 193 krónur hjá Nettó. 71 prósents verðmunur var á rauðum vínberjum sem voru dýrust hjá Nóatúni en ódýrust hjá Nettó.

Könnunin var í Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Samkaupum-Úrvali, Hagkaupum og Nóatúni. Verslanirnar Víðir og Kostur neituðu þátttöku í könnun verðlagseftirlitsins. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×