Innlent

Skattleggja hagnað en lækka skatt á laun

Mynd/GVA
Fjársýsluskattur á lífeyrissjóði verður felldur út úr frumvarpi fjármálaráðherra um ráðstafanir í ríkisfjármálum, bandorminum svokallaða. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar samþykkti umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu í gærkvöld. Það verður til umræðu á þingi í dag.

Þá verður fjársýsluskattur á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja lækkaður um tæpan helming, úr 10,5 prósentum í 5,45 prósent. Þess í stað verður lagður sérstakur sex prósenta tekjuskattur á hagnað fjármálastofnana umfram einn milljarð. Helgi Hjörvar, formaður nefndarinnar, segir að þetta lækki tekjur ríkissjóðs á rekstrargrunni en hafi ekki áhrif á greiðslugrunn ársins 2012, en við hann miðast efnahagsáætlanir ríkisstjórnarinnar.

Mörkin á milli fyrsta og annars þreps í almennum tekjuskatti hækka um 9,8 prósent samkvæmt tillögunum, en ekki 3,5 prósent líkt og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Mörkin fyrir annað þrep verða 230 þúsund krónur. Mörk þriðja þreps verða óbreytt, 704 þúsund krónur.

Reiknað er með að þessi breyting skili ríkissjóði 300 milljóna króna lægri tekjum. Þá er gert ráð fyrir að framlengja um þrjá mánuði heimild til úttektar á séreignarsparnaði frá því sem frumvarpið kvað á um.

„Við gerum ráð fyrir því að viðbótartekjur af þeirri framlengingu muni skila svipuðum tekjum og tekjutapið vegna hækkunar neðra skattþrepsins," segir Helgi.

Gildistími auðlegðarskatts verður styttur til samræmis við gildistíma gjaldeyrishafta og rennur hann út í árslok 2013. Helgi segir að nefndin hafi talið skynsamlegt að skoða þetta tvennt í samhengi. Hann segir það mat fjármálaráðuneytisins að breytingarnar hafi ekki áhrif á greiðslugrunn fjárlaganna.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×