Innlent

Um 64% vilja að Jón hætti

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Tæplega tveir af hverjum þremur sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 vilja að Jón Bjarnason láti af embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Alls segjast 35,7 prósent þeirra sem afstöðu taka vilja að Jón sitji áfram sem ráðherra. Um 64,3 prósent vilja að hann hætti.

Stuðningur við Jón er lítið meiri þegar eingöngu er skoðuð afstaða stuðningsmanna flokks Jóns, Vinstri grænna. Alls segjast 37,1 prósent þeirra sem segjast myndu kjósa Vinstri græna vilja að Jón haldi áfram sem ráðherra, en 62,9 prósent vilja að hann láti af embætti sínu.

Meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar segjast aðeins 8,3 prósent vilja að Jón sitji áfram, en 91,7 prósent vilja hann út embætti. Um 46,2 prósent þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn vilja að Jón haldi ráðherrastól sínum, og 34,5 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Heldur fleiri karlar en konur vilja að Jón sitji áfram. Um 38,3 prósent karla vilja að hann verði áfram ráðherra en 32,6 prósent kvenna.

Stuðningur við Jón er talsvert meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Um 32,5 prósent borgarbúa sem afstöðu taka vilja að Jón sitji áfram, en 42,5 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Hringt var í 800 manns dagana 7. og 8. desember. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Finnst þér að Jón Bjarnason eigi að sitja áfram sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Alls tóku 75,4 prósent afstöðu til spurningarinnar. - bjAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×