Lífið

15 milljóna frumsýningarhelgi

Kvikmyndirnar Borgríki, sem Ingvar E. Sigurðsson leikur eitt aðalhlutverkanna í, og Þór nutu mestra vinsælda um helgina í kvikmyndahúsum borgarinnar. Sex leiknar íslenskar kvikmyndir eru sýndar í kvikmyndahúsum borgarinnar um þessar mundir.
Kvikmyndirnar Borgríki, sem Ingvar E. Sigurðsson leikur eitt aðalhlutverkanna í, og Þór nutu mestra vinsælda um helgina í kvikmyndahúsum borgarinnar. Sex leiknar íslenskar kvikmyndir eru sýndar í kvikmyndahúsum borgarinnar um þessar mundir.
„Þetta er ótrúleg uppskera," segir Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags íslenskra kvikmyndagerðamanna. Sex nýjar leiknar íslenskar kvikmyndir eru sýndar um þessar mundir í íslenskum kvikmyndahúsum en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur það ekki gerst áður. Hrafnhildur segir að þótt hún horfi til þessa merka áfanga með gleði í hjarta líti framtíðin ekkert sérstaklega vel út. „Það er eiginlega ekkert að fara af stað núna í íslenskri kvikmyndagerð."

Kvikmyndirnar Borgríki og teiknimyndin Hetjur Valhallar: Þór voru aðsóknarmestu myndirnar um liðna helgi en þær voru báðar frumsýndar í síðustu viku. Aðgangseyririnn á þessar tvær myndir nam tæplega fimmtán milljónum íslenskra króna. Rúmlega átta þúsund manns sáu Þór en myndin er dýrasta kvikmynd Íslandssögunnar og var rúm sjö ár í vinnslu. Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga talar fyrir persónur myndarinnar en meðal þeirra eru Atli Rafn Sigurðarson, Laddi og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Leikstjóri er Óskar Jónasson. Rúmlega þrjú þúsund fóru að sjá Borgríki sem fjallar um baráttuna um undirheima Reykjavíkur. Ágústa Eva Erlendsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson og Sigurður Sigurjónsson leika aðalhlutverkin en leikstjóri er Ólafur Jóhannesson.

Stöðug aðsókn er á verðlaunakvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Eldfjall en tæplega 5.500 gestir hafa séð hana. Algjör Sveppi og töfraskápurinn nálgast þrjátíu þúsunda takmarkið óðfluga en Hrafnar, sóleyjar og myrra hefur ekki náð almennilegu flugi, aðeins 932 hafa séð myndina. Kvikmyndin Á annan veg er svo sýnd í Bíó Paradís. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.