Lífið

Snuðra um fólk og staði

Snuðra víða Nanna Dís Jónsdóttir og Guðni Rúnar Jónasson standa á bak við bloggið Snoop-around.
Snuðra víða Nanna Dís Jónsdóttir og Guðni Rúnar Jónasson standa á bak við bloggið Snoop-around.
Snoop-around er ný ljósmynda- og viðtalsvefsíða þar sem heimili, vinnustaðir og vinnustofur skapandi fólks eru heimsótt. Markmið síðunnar er að gefa innsýn í líf áhugaverðs fólks bæði í máli og myndum.

Að baki síðunni standa þau Nanna Dís Jónsdóttir og Guðni Rúnar Jónasson. „Ég les mikið af bloggum og þá aðallega síður þar sem fólk er heimsótt og heimili þess skoðuð. Mér fannst þetta alveg vanta hérna heima og út frá því fæddist eiginlega hugmyndin,“ útskýrir Nanna Dís. Hún sér um að mynda það sem fyrir augu ber á meðan Guðni Rúnar sér um viðtöl og greinaskrif.

Nanna Dís segist aðallega hafa heimsótt kunningja og vini í upphafi en að nú berist þeim gjarnan skemmtilegar ábendingar frá hinum og þessum um skemmtileg viðtalsefni. Auk þess að líta inn á heimili fólks skoða þau einnig verslanir, veitingastaði og vinnustofur listamanna og því er efni vefsíðunnar fjölbreytt og skemmtilegt. Aðspurð segir hún flesta taka vel í bón þeirra um innlit þó að sumir hafi neitað þeim um slíkt. „Við höfum fengið alveg merkilega góðar móttökur frá flestum. Aðrir eru meira þjófhræddir og vilja alls ekki fá okkur í heimsókn.“

Meðal þeirra sem þau í Snoop-around hafa heimsótt eru tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen, verslunin Hringa og veitingastaðurinn Sjávargrillið og segir Nanna Dís að fyrirhuguð sé heimsókn bæði til Sigríðar Soffíu dansara og Fjölnis tattú. Þeim sem hafa áhuga á að skoða síðuna er bent á slóðina www.snoop-around.com. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.