„Ég er ekki búinn að fara úr náttfötunum í svona 72 tíma,“ segir Árni Hjörvar Árnason, bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines.
Árni býr í London en safnar nú kröftum á heimaslóðum, enda gríðarlega viðburðaríkt sumar fram undan. The Vaccines er bókuð á 45 tónleikahátíðir um allan heim í sumar og í maí heldur hljómsveitin í tónleikaferðalag til Bandaríkjanna með hinum bresku Arctic Monkeys. „Lifrin mín verður örugglega uppgefin eftir sumarið,“ segir Árni léttur.
Til hefur staðið að hljómsveitirnar ferðist saman í nokkra mánuði, en strákarnir í Arctic Monkeys sáu The Vaccines á tónleikum í Los Angeles í janúar. „Þeir kíktu á okkur, en umræðan byrjaði þegar við spiluðum á fyrstu tónleikunum okkar í New York – það var einmitt sama dag og við vorum beðnir um að spila með Arcade Fire í Hyde Park,“ segir Árni ánægður með hvernig spilast hefur úr hlutunum. Arctic Monkeys er gríðarlega vinsæl hljómsveit í Bretlandi og Evrópu. Tónleikaferðalagið verður því talsvert stærra en strákarnir í The Vaccines þekkja, en þeir munu koma fram í 5-6.000 manna sölum – sem eru þó talsvert minni en tugþúsund manna hallirnar sem Arctic Monkeys fyllir í Bretlandi. „Þeir eru í guðatölu í Bretlandi og það væri óeðlilegt ef þeir væru líka í guðatölu í Bandaríkjunum,“ segir Árni Hjörvar. - afb
Safnar kröftum fyrir risasumar
