Fótbolti

Möguleikinn er til staðar á Kýpur

Arnar Björnsson á Kýpur skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Það er ekki oft að tveir markverðir meiðast með fótboltalandsliðinu í sömu ferðinni en þegar ljóst varð á æfingu í gær að ökklinn á Ingvari Kale þyldi ekki álagið varð þjálfarinn að grípa til þess ráðs að hringja í fjórða markvörðinn. Valsmaðurinn Haraldur Björnsson kemur til Kýpur klukkan hálf þrjú í dag, nokkrum klukkutímum fyrir leik Íslands gegn Kýpur í undankeppni EM 2012. Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari hafði ákveðið fyrir nokkru að Stefán Logi Magnússon yrði í markinu í sínum 5. landsleik.

Í gærmorgun meiddist sá sem staðið hafði í markinu í síðustu leikjum, Gunnleifur Gunnleifsson. Og á sama tíma varð ljóst að Kolbeinn Sigþórsson, sem hefur verið sjóðheitur með AZ Alkmaar í Hollandi, yrði ekki með vegna meiðsla.

Áhersla á varnarleikinnÓlafur segist svekktur með að geta ekki nýtt Kolbein en hann, Heiðar Helguson, Alfreð Finnbogason og Gylfi Sigurðsson hafa verið að skora með liðum sínum að undanförnu. Það hefur ekki alltaf verið þannig þegar íslenska landsliðið hefur spilað að markaskorarar okkar hafi verið sjóðheitir daginn fyrir landsleik.

Ólafur leggur áherslu á varnarleik íslenska liðsins á morgun. „Kýpurmenn eru góðir þegar þeir hafa boltann en þeir eru ekkert sérstaklega duglegir að verjast, þar þurfum við að nýta okkar tækifæri,“ sagði Ólafur en hann gerir sjö breytingar á liði sínu frá síðasta leik, gegn Portúgal í haust.

Hermann Hreiðarsson er nú með á nýjan leik eftir meiðsli en þessi baráttujaxl heldur uppi móralnum í liðinu. Hann er orðinn 36 ára en þegar hann slæst við unglingana á milli æfinga er hann jafningi þeirra. Kraftur Hermanns og eldmóður heldur „unglingunum“ við efnið. Hermann segir að nú sé tími til kominn að fá stig í þessari keppni. „Möguleikinn er til staðar, ungu strákarnir vilja allir sanna sig og festa sig í sessi.“

Hermann, sem lék sinn fyrsta landsleik gegn Kýpur fyrir fimmtán árum, man vel eftir þeim leik. „Ég kom tvisvar þrisvar við boltann í leiknum, en við unnum,“ segir baráttujaxlinn, sem verður fyrirliði í 18. sinn í kvöld í sínum 87. landsleik.

Völlurinn sem spilað verður á tekur um 23 þúsund áhorfendur en þeir verða vart fleiri en 3-5 þúsund á morgun. Þrátt fyrir góðan árangur í Portúgal, þegar Kýpur gerði 4-4 jafntefli við Ronaldo og alla hina snillingana, er landsliðið ekki í miklum metum hér á Kýpur. Meira líf er á vellinum þegar erkifjendurnir Omonia og Apoel mætast, þá er völlurinn fullur og fjölga þarf í lögregluliðinu. Kýpurmenn hafa nefnilega fengið sinn skammt af fótboltabullum.

Gengið betur en ég þorði að vonaEn „strákarnir okkar“ mæta til leiks í kvöld með það að markmiði að vinna leikinn. Það markmið hefur reyndar nokkrum sinnum áður verið sett. Heiðar Helguson er vís til að skora þriðja mark sitt í keppninni og Gylfi Sigurðsson er draugfúll að fá ekki að spila meira með Hoffenheim, þrátt fyrir að skora næstum því alltaf þegar hann reimar á sig skóna.

Á bekknum bíður Alfreð Finnbogason eftir tækifæri. „Mér hefur gengið miklu betur hjá Lokeren en ég þorði að vona. Þjálfarinn hefur trú á mér og ég finn fyrir miklum stuðningi frá stuðningsmönnum félagsins,“ sagði Alfreð. Leikur Kýpur og Íslands verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 18.00.


Tengdar fréttir

Rúrik: Hermann geðbilaður í hausnum

Stemningin hefur greinilega verið góð í herbúðum íslenska landsliðsins í knattspyrnu en það mætir í dag Kýpverjum ytra í undankeppni EM 2012.

Gunnleifur er meiddur í baki - óvíst með framhaldið á Kýpur

Gunnleifur Gunnleifsson markvörður íslenska landsliðsins er meiddur í baki og óvíst hvort hann getur verið með á lokaæfingunni í kvöld. Ísland mætir Kýpur á morgun í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu en Ísland er án stiga í riðlinum eftir þrjá leiki en Kýpur er með eitt stig.

Eggert: Taflan lýgur ekki

Eggert Gunnþór Jónsson, leikmaður íslenska landsliðsins, segir það tímabært að liðið nái í sín fyrstu stig í undankeppni EM 2012.

Aron vill losna frá Coventry

Aron Einar Gunnarsson segir að það sé greinilega eitthvað misjafnt á gangi í félagi hans, Coventry í Englandi, og að hann vilji losna frá félaginu miðað við núverandi stöðu.

Gylfi: Markmiðið alltaf að skora

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, segist alltaf stefna að því að skora í sínum leikjum - sama hver andstæðingurinn sé.

Haraldur kallaður til Kýpur

Haraldur Björnsson, markvörður íslenska U-21 landsliðsins, hefur verið kallaður í A-landsliðið vegna meiðsla þeirra Gunnleifs Gunnleifssonar og Ingvars Þórs Kale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×