Innlent

NATO styrki breytt rafkerfi á varnarsvæði

Styrkir NATO renna til reksturs loftvarnakerfisins sem er þáttur í sameiginlegum vörnum bandalagsins
Styrkir NATO renna til reksturs loftvarnakerfisins sem er þáttur í sameiginlegum vörnum bandalagsins .Fréttablaðið/vilhelm
Íslenzk stjórnvöld hafa samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu sótt um styrk til Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins (NATO) til að skipta um rafkerfi í stjórnstöð loftvarnakerfisins á Keflavíkurflugvelli og í mannvirkjum á varnarsvæðinu á vellinum, sem notuð eru vegna loftrýmisgæzlu NATO. Í þessum mannvirkjum er notuð 110 volta spenna, sem er arfleifð frá tíma varnarstöðvar Bandaríkjanna, en staðallinn á Íslandi er 230 volt.

Eftir brotthvarf varnarliðsins frá Íslandi 2006 tóku íslenzk stjórnvöld við ábyrgð á mannvirkjum NATO og framkvæmdum á vegum mannvirkjasjóðsins sem gistiríki. Ísland átti áður ekki sjálfstæða aðild að sjóðnum, þar sem Bandaríkin sátu þar fyrir Íslands hönd.

Ísland byrjaði að borga í sjóðinn 2007 og árið eftir var samþykktur fyrsti styrkurinn til Íslands eftir brotthvarf varnarliðsins. Styrkurinn rennur til reksturs og viðhalds á loftvarnakerfinu, sem Landhelgisgæzlan rekur nú. Hann nemur þremur milljónum evra, eða um 480 milljónum króna, og dreifist á tímabilið 2008-2015.

Umsóknin vegna breytingar á rafmagnskerfinu er enn til umfjöllunar. Þá er í undirbúningi að sækja um fé til mannvirkjasjóðsins vegna tveggja annarra verkefna, annars vegar uppfærslu á hugbúnaðarkerfi loftvarnakerfisins og hins vegar vegna fyrirhugaðrar aðlögunar þess að nýju og heildstæðu loftvarnakerfi NATO á árunum 2016-2018.- óþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×