Fótbolti

Neymar sakar stuðningsmenn Skota um kynþáttaníð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar í leiknum í gær.
Neymar í leiknum í gær. Nordic Photos / AFP
Brasilíski framherjinn Neymar, sem skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri á Skotum í æfingaleik liðanna í gær, sakar stuðningsmenn Skota um að beitt sig kynþáttaníði.

Fjölmiðlafulltrúi brasilíska liðsins hefur staðfest að banana hafi verið kastað inn á völlinn á meðan leiknum stóð.

„Það viðhorf sem virðist ríkja gagnvart kynþáttaníði er mjög sorglegt,“ sagði Neymar í samtali við brasilíska sjónvarpsstöð en leikurinn fór fram á Emirates-leikvanginum í Lundúnum.. „Við komum hingað til að spila og svona lagað gerist.“

Talsmaður skoska knattspyrnusambandsins tók fyrir þetta. „Ekkert í þessum dúr hefur verið tilkynnt til lögreglu né heldur yfirmanns öryggismála á vellinum,“ sagði hann. „Þvert á móti voru þeim tugum þúsunda stuðningsmanna skoska landsliðsins sem komu á leikinn hrósað fyrir góða hegðun.“

„Þetta er sorlgegt en ég mun ekki hafa of miklar áhyggjur af þessu,“ bætti Neymar við. „Þetta var frábær dagur og sannarlega minnisstæður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×