Innlent

Stefna Ragnari fyrir að kalla sig „féfletta“

Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
Viðskiptafélagarnir Árni Hauksson og Friðrik Hallbjörn Karlsson hafa stefnt viðskiptafræðingnum Ragnari Önundarsyni fyrir meiðyrði. Tvímenningarnir, sem eru meðal stærstu eigenda Haga, krefjast hvor um sig átta hundruð þúsund króna í miskabætur, auk greiðslu fyrir opinbera birtingu dómsins.

Málið snýst um tvær greinar sem Ragnar skrifaði í Morgunblaðið, annars vegar í lok ágúst og hins vegar í lok september.

Þar var fjallað um viðskipti tvímenninganna með Húsasmiðjuna og hlut í Högum og kallaði Ragnar mennina ítrekað „féfletta“, með þeim rökum að þeir hefðu stundað eignatilfærslur en ekki fjárfestingar og þannig hagnast óeðlilega á kostnað hluthafa. Það eru þau ummæli sem krafist er ómerkingar á.

„Ég hef verið svolítið harðorður um þetta mál allt saman,“ segir Ragnar. Hann telji hins vegar óhjákvæmilegt að taka þessi mál til alvarlegrar umræðu og menn geti verið eins skýrmæltir um þau og þeir telji þurfa.

„Ég álít þess vegna að mín ummæli séu að öllu leyti réttlætanleg og dreg ekki á nokkurn hátt í land með þau.“

Spurður hvort ekki hafi verið vel í lagt að kalla mennina „féfletta“ svarar Ragnar: „Fjárfestir er heiðursnafnbót, en þeir sem leggja stund á eignatilfærslur – skyndigróða af þessu tagi – þeir eiga ekki rétt á að nota það orð. Þeir þurfa annað fagheiti og mín uppástunga er sú að það orð verði notað um alla þá sem þetta stunda.“

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×