Innlent

Ekkert samkomulag gert um að fella niður neysluhlésgreiðslur

Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara vísar því alfarið á bug að niðurfelling svokallaðra neysluhlésgreiðslna hjá leikskólakennurum hafi verið hluti samkomulags sem gert var í síðustu kjarasamningum. Leikskólakennarar hafa mótmælt niðurfellingunni en borgaryfirvöld hafa ávallt svarað því til að skýrt hafi komið fram í síðustu kjaraviðræðum að greiðslurnar myndu falla niður. Þetta segir Haraldur alrangt, ekkert ekkert samkomulag var gert, hvorki við kjarasamningsborðið né í reykfylltum bakherbergjum, eins og hann orðar það.

Greiðslunum var ætlað að koma til móts við leikskólakennara sem borða með börnunum í hádeginu og eiga því ekki kost á matarhléi. Þær hafa nú verið felldar niður hjá þeim, en ekki hjá öðrum starfsmönnum skólanna.

„Sú leið sem farin verður til leiðréttingar á launum leikskólakennara er vel útlistuð í fylgiskjali 3 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands vegna Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga," segir hann ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×