Innlent

Vonast eftir samþykki árið 2014

Þingvellir í heild eru þegar á heimsminjaskrá, en þingstaðurinn sjálfur er einnig í umsókninni að þessu sinni. Fréttablaðið/gva
Þingvellir í heild eru þegar á heimsminjaskrá, en þingstaðurinn sjálfur er einnig í umsókninni að þessu sinni. Fréttablaðið/gva
Umsókn Íslands og fimm annarra ríkja um svokallaða raðtilnefningu átta svæða, sem á er að finna víkingaminjar, á heimsminjaskrá UNESCO mun tefjast um eitt ár. Er vonast til þess að tilnefningin verði tekin fyrir árið 2013 og fullgilt árið eftir.

Íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæði að verkefninu fyrir um fimm árum, en önnur þátttökuríki eru Danmörk, Noregur, Þýskaland, Svíþjóð og Lettland.

„Þetta er mjög flókin umsókn þar sem þarna eru mörg ríki sem sækja um saman og í raun í fyrsta sinn sem þetta er gert innan heimsminjageirans,“ segir Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir, sem er formaður verkefnastjórnar. „Við þurfum að lýsa þessum átta stöðum sem einum stað. Honum þarf að lýsa og gildi hans fyrir heiminn. Svo þurfum við að sannfæra aðra um að hann eigi heima í þessum hópi.“

Íslenski hluti tilnefningarinnar er Þingvellir, sem eru í raun þegar á heimsminjaskrá, en í þessu tilfelli er aðeins tiltekinn þingstaðurinn sjálfur.

Ragnheiður segist reikna með að umsókninni verði skilað með vorinu, en það sé of seint til að hún verði tekin fyrir á næsta ári.

„Þetta hefur í raun gengið ótrúlega hratt miðað við hvað málið er flókið, en við viljum gera allt eins vel og við getum og hafa allt á hreinu í stað þess að gera einhver mistök á síðustu metrunum.“ - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×