Innlent

AG mátti hafa fyrir sigrinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir AG í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði þrjú mörk fyrir AG í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
AG vann enn einn sigurinn í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld er liðið mætti Mors-Thy á heimavelli. Dönsku meistararnir þurftu þó að hafa fyrir sigrinum en unnu að lokum með fjögurra marka mun, 27-23.

Yfirburðir AG voru þó nokkrir í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 15-10, heimamönnum í vil. Mors-Thy byrjaði þó seinni hálfleikinn vel og náði að jafna metin í 18-18 þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

En leikmenn AG náðu að síga aftur fram úr og vinna að lokum sigur. Guðjón Valur Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson skorðu þrjú mörk hvor fyrir AG og Ólafur Stefánsson eitt. Arnór Atlason var hvíldur í kvöld.

Einar Ingi Hrafnsson leikur með Mors-Thy en ekki hafa borist upplýsingar um hversu mörg mörk hann skoraði í leiknum.

Guðmundur Árni Ólafsson og félagar í Bjerringbro/Silkeborg unnu sigur á Álaborg á útivelli, 31-26, en Guðmundur skoraði ekki í leiknum.

Nordsjælland, lið Ólafs Guðmundssonar, tapaði fyrir Viborg á útivelli, 25-21.

AG er á toppi deildarinnar með 29 stig, Bjerringbro/Silkeborg í því þriðja með 23 stig en Nordsjælland er í ellefta sæti með ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×