Lífið

Snorri Helga sendur í jóga

Snorri Helgason er á leiðinni til landsins í júlí til að fylgja eftir útgáfu á plötunni Winter Sun.
Snorri Helgason er á leiðinni til landsins í júlí til að fylgja eftir útgáfu á plötunni Winter Sun.
„Ég er ekki beint þekktur fyrir að vera mikill íþróttamaður en jógaæfingar virðast henta mér ágætlega," segir Snorri Helgason tónlistarmaður, en hann uppgötvaði nýlega hvað hugleiðsluíþróttin fer vel saman við tónlistarbransann, sem oft á tíðum getur tekið á líkama og sál.

Snorri hefur verið búsettur í London undanfarið ár ásamt unnustu sinni, Hildu Gunnarsdóttur fatahönnuði. Þar er hann að koma sinni eigin tónlist á framfæri. Það var einmitt á tónleikum í Þýskalandi með hljómsveitinni Hjaltalín sem Snorri var hvattur til að fara að hreyfa sig. „Ég var að gera nokkrar hnébeygjur og liðka mig til svona rétt áður en ég steig á svið þegar það heyrðist mikið brak úr hnjánum á mér. Krakkarnir létu mig heyra það og sögðu að svona brak væri ekki eðlilegt í ungum manni eins og mér," segir Snorri glettinn, en hann stundar nú jóga af miklum móð og finnur mun.

„Brakið er samt ekki farið enn þá en mér finnst þetta þægilegt. Ég ætla ekki að verða neinn jógagúru en held að ég sé að ná því að vera ekki kaldhæðinn og fara í þetta með opnum huga, sérstaklega þegar kennarinn segir okkur að „anda heiminum inn og áhyggjum út"."

Snorri er væntanlegur til landsins innan skamms til að fylgja útgáfu plötu sinnar Winter Sun eftir en hún kemur út í júlí. Hann kemur fram á LungA hátíðinni um miðjan júlí og Innipúkanum um verslunarmannahelgina en í næstu viku kemur út nýtt lag með Snorra sem nefnist River.

„Við ætlum okkur að vera áfram í London en tónlistarbransinn hér er nokkuð harður enda mikið framboð af svipaðri tónlist. Ég finn samt að hlutirnir eru að komast í rútínu og ég er farinn að spila á réttu stöðunum." - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.