Innlent

Ákvörðun Kjararáðs sparar tíma fyrir önnur stéttarfélög

Boði Logason skrifar
Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir að með því að draga launalækkanir alþingismanna og ráðherra til baka sé kjararáð að segja að svigrúm sé fyrir önnur stéttarfélög og aðila á almennum vinnumarkaði að draga launalækkanir til baka.
Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir að með því að draga launalækkanir alþingismanna og ráðherra til baka sé kjararáð að segja að svigrúm sé fyrir önnur stéttarfélög og aðila á almennum vinnumarkaði að draga launalækkanir til baka. mynd/úr safni
„Ég hef alltaf verið stuðningsmaður launahækkana," segir Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Hann segir að með því að draga launalækkanir alþingismanna og ráðherra til baka sé Kjararáð að spara stéttarfélögum og öðrum aðilum á almennum vinnumarkaði, miklu vinnu þegar sest verður að fundarborðunum í janúar.

Kjararáð ákvað í gær að draga til baka allar þær launalækkanir hjá alþingsmönnum og ráðherrum sem ráðist var í eftir bankahrunið, en laun þeirra voru lækkuð um 5 til 15 prósent þá. Ákvörðun ráðsins var tekin á grundvelli heimildar frá Alþingi.

Guðmundur segir að með þessari ákvörðun kjararáðs sé verið að segja að svigrúm sé til þess að draga 5 til 15 prósent launalækkanir á almennum vinnumarkaði til baka.

„Kjararáð vinnur eftir haldbærum gögnum og komast að rökréttri niðurstöðu. Með þeim gögnum sem þeir hafa unnið eftir eru þeir að spara mikla vinnu hjá þeim hópum innan ASÍ sem setjast að fundarborðinu í byrjun janúar," segir hann en samningum á að vera lokið hjá þessum hópum fyrir 28. janúar.

Með því að komast að þessari niðurstöðu núna séu þeir að vinna eins og kardínálar, sem gefa merki um að þeir hafa komist að niðurstöðu með reyk. „Þeir eru alveg örugglega að leiðbeina stéttafélögum og öðrum á almennum vinnumarkaði hvað eigi að gera í janúar," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×