Innlent

Meirihluti utanríkismálanefndar vill Árna Pál

Meirihluti utanríkismálanefndar beinir því til ríkisstjórnarinnar að fyrirsvar í dómsmálum og öðru því sem snýr að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum sé áfram í höndum efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta kom fram í bókun meirihlutans, en hann mynda tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks, tveir frá Framsóknarflokki og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Vinstri grænum. Fjórir fulltrúar Samfylkingar og VG lögðu hinsvegar til að málið yrði hér eftir í forsvari utanríkisráðherra og Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingu tók undir þau sjónarmið. Hún er hinsvegar aðeins áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Á fund nefndarinnar í gærkvöldi mættu einnig ráðuneytisstjórar forsætis- og utanríkisráðuneytisins ásamt sérfræðingi í málefnum EFTA-dómstólsins. Sögðu þeir málið heyra undir utanríkisráðherra.

„Ýmis fordæmi eru fyrir þeirri tilhögun að fagráðherra fari með fyrirsvar í tilteknum milliríkjamálum og eðlilegt er að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi áfram samráð um allar ákvarðanir í málinu við utanríkismálanefnd Alþingis. Þá hlýtur að teljast æskilegt að úrvinnsla Icesave sé ekki á sömu hendi og aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ljósi forsögu málsins er mikilvægt að aðkoma að málinu byggi á raunverulegu samráði allra flokka á Alþingi og að sem víðtækust sátt ríki um málsmeðferðina í samfélaginu," segir í bókun meirihlutans.

„Meirihluti nefndarmanna, fimm fulltrúar af níu, leggja því áherslu á að Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra fari áfram með fyrirsvar Icesavemálsins gagnvart ESA og EFTA dómstólnum. Minnihluti nefndarinnar, fjórir fulltrúar, lögðu fram aðra bókun. Ríkisstjórn Íslands hlýtur að taka tillit til vilja meirihluta utanríkismálanefnar," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×