Innlent

Þriggja mánaða skilorð fyrir að ganga í skrokk á sambýliskonu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir tvær árásir á þáverandi sambýliskonu sína og hótanir í garð hennar. Fyrri árásin var gerð í ágúst eða september í fyrra en þá sló maðurinn hana í fataherbergi á heimili þeirra.

Síðari árásin var gerð í nóvember í fyrra. Þá kýldi maðurinn konuna og sparkaði í maga hennar nokkrum sinnum fyrir framan tveggja ára son hennar sem var staddur á heimili þeirra. Maðurinn hætti ekki árásinni fyrr en konan var byrjuð að öskra og gráta.

Þá hringdi maðurinn í konuna í júlí síðastliðnum og hótaði að senda handrukkara til hennar, sem væru á leiðinni heim til hennar vegna meintrar skuldar upp á 120 þúsund krónur.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi en krafðist vægustu refsingar. Konan krafði manninn um 1500 þúsund krónur í miskabætur á þeirri forsendu að hún hafi þurft að leita til geðlæknis og taka lyf vegna háttsemi mannsins. Dómari komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki lægju fyrir upplýsingar eða gögn um læknismeðferðina eða líðan brotaþola og því skorti því upplýsingar til að meta umfang miska sem hún hafi orðið fyrir. Dómari vísaði því bótakröfunni frá dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×