Innlent

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar samþykkt í kvöld

Kópavogur.
Kópavogur.
Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2012 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í kvöld en að henni standa allir flokkar í bæjarstjórn nema Sjálfstæðisflokkurinn samkvæmt tilkynningu frá Kópavogi.

þar segir einnig að í áætluninni sé áfram gert ráð fyrir aðhaldi í rekstri og lækkun skulda. Breytingartillögur sjálfstæðismanna voru felldar. Í bókun þeirra sjö bæjarfulltrúa sem stóðu að áætluninni segir að áhersla sé lögð á barnvænt samfélag í Kópavogi, þjónustu við einstaklinga með fötlun og að sérstakt átak verði gert í umhverfismálum.

„Vel hefur verið haldið utan um fjármál Kópavogsbæjar á erfiðum tímum og ítrasta aðhalds gætt,“ segir í bókuninni.

Það nýmæli verður tekið upp næsta haust að þeir sem eru með barn hjá dagforeldrum munu greiða sama gjald og í leikskólum. Þá er í áætluninni miðað við að sorp verði flokkað í öllum hverfum bæjarins og mun því sorphirðugjald hækka, einkum vegna þess að bæta þarf við annarri tunnu. Framlag til fjárhagsaðstoðar og sérstakrar aðstoðar fyrir barnafólk verður aukið að því er greint er frá í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×