Innlent

Segir hleranir sérstaks brjóta í bága við lög

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.
Formaður Lögmannafélags Íslands telur hleranir embættis sérstaks saksóknara brjóta í bága við lög og gagnrýnir dómstóla að heimila slíkar hleranir. Þrátt fyrir bankahrun, kalli almannahagsmunir ekki á hleranir.

Eins og fram kom í fréttum í gær hefur embætti sérstaks saksóknara kært tvo einstaklinga, annars vegar starfsmann Vodafone, samkvæmt heimildum fréttastofu og hins vegar fyrrverandi starfsmann móðurfélags Símans fyrir að leka því í sakborninga í rannsóknum sérstaks saksóknara að símar þeirra væru hleraðir.

Ekki er vitað til þess að menn hafi verið dæmdir fyrir að rjúfa þagnarskyldu með þessum hætti og skaða rannsókn lögreglumála en af samtölum fréttastofu við lögmenn telja þeir að slíkur leki væri brot á fjarskiptalögum og hugsanlega einnig almennum hegningarlögum.

Í sumar kom fram að sérstakur saksóknari hafi fengið heimild til að hlera 106 símanúmer á tveimur árum. Brynjar Níelsson formaður Lögmannafélags Íslands telur hins vegar að hleranir sérstaks saksóknara brjóti í bága við lög um meðferð sakamála - og reyndar að þær séu auk þess tilgangslausar, svo löngu síðar. Hann segir að hámarksrefsing í þeim málum sem um ræði sé sex ára fangelsi, en að lágmarks refsing sem þurfi að vera fyrir því að símahleranir séu heimilaðar séu átta ár, nema að almannahagsmunir komi til. Sú staðreynd að málin tengist hruninu 2008 hafi engin áhrif á málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×